Fjórði kórónulestur er áframhald eldrauðrar ádeilu frá upphafi fjórða áratugar síðustu aldar. Kommúnistar vega hart að hefðbundnum óvini, auðvaldinu, en einna helst yfirvöldum og kóngi, sem með fátækralögum eru talin kúga fátækan lýð landsins. Lesturinn varpar upp hugmyndinni um hvort að áherslur og málfar liðinna alda eigi sér nútímabirtingarmynd. Hringið í eldri ættingja og spyrjið um þeirra upplifun á því hver hafi verið málsvari fátæklinga áður fyrr, hvort þau hafi upplifað þessa róttæku togstreitu sem kommúnisminn einfaldar sem öreiga og auðvald, hvernig litið hafi verið á kommúnisaflokkinn, og hvenær síðasti kommúnistinn hafi birst á opinberum vettvangi.